Áhugasviðsvika 15. – 17. mars

Í síðustu viku vorum við með áhugasviðsviku frá þriðjudegi til föstudags þar sem nemendur unnu skemmtileg og fjölbreytt verkefni eftir eigin áhuga. Allir morgnar byrjuðu með lestrastund áður en farið var í áhugasviðsverkefni og svo fóru allir nemendur í hreyfistund í 1 klst hvern dag. Hægt var að velja um að fara út að renna eða í leiki og í salnum var í boði Zumba með Valerija, jóga með Ástu og leikir með Jóhönnu. Þetta er í annað skiptið sem við höfum svona viku í skólanum og núna voru nemendur 3ja bekkjar meira með í valinu á meðan 1. og 2. bekkur voru meira í stýrðum verkefnum. Nemendur í 4. – 10. bekk völdu sér verkefni eftir áhuga og unnu að þeim alla vikuna eftir eigin tímaáætlun, skipulagi og tengdu við lykilhæfni. Meðal verkefna sem voru gerð þessa viku voru bakstur, textíll, hekl, prjón, smíðar, viðtalsþáttur, listaverk, tölvuleikir og stuttmyndir. Í heildina gekk áhugasviðsvikan mjög vel og nemendur höfðu gaman af. Við enduðum svo áhugasviðsvikuna á föstudag með sýningu á verkunum, allir fengu að smakka afrakstur bakstursins og svo var endað á bíó fyrir alla í salnum. Góður endir á góðri viku.