Gildi
Í Reykjahlíðarskóla starfa nemendur og starfsfólk saman undir einkunnarorðunum virðing, vellíðan, árangur. Skólastarfið byggir á þessum orðum sem fela í sér lífsleikni í sínum víðasta skilningi og leggur grunninn að skólastarfinu.
Virðing
Lögð er áhersla á virðingu í víðtækum skilningi: Sjálfsvirðingu nemenda, virðingu fyrir öðrum nemendum og starfsfólki, virðingu fyrir eigin eigum og annarra, virðingu fyrir fólki með mismunandi bakgrunn og skoðanir.
Virðingu fyrir náttúrunni: nemendur læri að meta og þekkja íslenska náttúru þannig að þeir kunni að njóta hennar og nýta á skynsamlegan hátt.
Virðing á að einkenna öll samskipti í Reykjahlíðarskóla.
Vellíðan
Lögð er áhersla á að öllum líði vel, skólinn sé öruggur staður þar sem unnið er að vellíðan nemenda í samvinnu við foreldra og aðra aðila.
Til að árangur skólastarfsins verði sem bestur er nauðsynlegt að nemendum líði vel andlega, líkamlega og félagslega. Forsenda þess að öllum líði vel í skólanum er að samskipti séu góð. Til að svo sé þarf að ríkja trúnaður, umburðalyndi og virðing fyrir verkum og skoðunum annarra, jafnt innan skólans sem utan.
Lögð er áhersla á gott viðmót í Reykjahlíðarskóla. Andrúmsloftið á að vera hvetjandi og hlúa að velferð einstaklinganna sem mynda skólasamfélagið.
Lögð er áhersla á samvinnu heimilis og skóla og virkt foreldrasamstarf. Einnig er lögð áhersla á tengsl við grenndarsamfélagið.
Skólahúsnæði og umhverfi hans verður að vera þannig að foreldrar þurfi ekki að óttast um öryggi barna sinna.
Nauðsynlegt er að forráðamenn hafi samband við skólann ef breytingar verða sem gætu haft áhrif á líðan nemenda.
Árangur
Áhersla er lögð á að nemendur nái sem bestum árangri í námi og leik.
Árangursríkt skólastarf byggir á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti heimilis og skóla.
Forráðamenn nemenda þekkja börnin sín best og því er nauðsynlegt að þeir hafi samband við umsjónarkennara og/eða skólastjóra þegar þeir telja þörf á.