Stefna Reykjahlíðarskóla
Reykjahlíðarskóli er grunnskóli þar sem grundvöllur starfsins er fræðsla og uppeldi sem byggir á Aðalnámskrá grunnskóla. Í lögum um grunnskóla frá 2008 segir að markmið grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Grunnskólinn á að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Skólinn skal stuðla að góðu samstarfi við heimilin með það að leiðarljósi að tryggja farsælt skólastarf. Starfshættir skólans eiga að mótast af umburðarlyndi, kærleika, kristilegri arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildum. Það er stefna skólans að öllum líði vel og að þeir nái árangri.