Þorrablót skólans og vegleg gjöf Mývetnings

Síðasta fimmtudag var Þorrablót grunnskólans haldið þar sem nemendur máttu bjóða með sér gestum. Það var ótrúlega góð mæting en yfir 100 manns komu og mikil gleði var við völd. Bekkjarfulltrúar og foreldrafélagið héldu utan um skipulagninguna og þökkum við þeim kærlega fyrir.
Miðstigið sá um skemmtiatriðin að þessu sinni, Jóhanna söng einsöng, strákarnir sýndu stuttmynd og stelpurnar sáu um æsispennandi leiki þar sem liðið Tyggjóklessurnar bar sigur úr bítum. Að lokum var svo stiginn dans en þar mátti glögglega sjá að nemendur hafa verið í danskennslu en þau dönsuðu af mikilli snilld.

Mývetningur Íþrótta- og ungmennafélag kom svo færandi hendi en Mývetningur hefur fest kaup á 20 pörum af gönguskíðum, skóm og göngustöfum. Ætlunin er að nemendur geti nýtt sér skíðin í kennslu, frístund eða sem hreyfitíma. Göngukíðin eiga eftir að nýtast okkur vel og þökkum við Mývetningi kærlega fyrir. Nú er bara að bíða eftir að snjórinn láti sjá sig svo nemendur komist á gönguskíði sem fyrst.