Forvarnaráætlun

Fíkniefnavarnir í grunnskólum beinast m.a. að því að gera nemendur færari um að taka eigin
ákvarðanir og taka ábyrga afstöðu gegn neyslu fíkniefna. Mikilvægt er að efla félags-,
tilfinninga- og siðgæðisþroska nemenda. Lögð er áhersla á að hjálpa nemendum til að þroska
félagslega eiginleika eins og sjálfsaga, ábyrgðartilfinningu, dómgreind, gagnrýna hugsun og
hæfni í samskiptum við aðra. Fíkniefnavarnir ber ekki að skoða sem einangraðan þátt heldur
sem hluta af margþættu uppeldisstarfi skólans. Mikilvægt er að tengja forvarnir við sem flestar
námsgreinar og má þar nefna lífsleikni, samfélagsfræði, náttúrufræði (líffræði) o.fl..
Uppeldi er langtímaferli og því nauðsynlegt að sinna fíkniefnavörnum frá upphafi til loka
grunnskóla. Í þessu sambandi er rétt að benda á að góð samskipti við foreldra er veigamikill
þáttur í því að ná settu marki hvað varðar þessi mál og í raun grundvöllur þess að árangur náist.

Yngsta stig
Byrja skal strax við upphaf skólagöngu að sinna markvissu forvarnarstarfi.

Markmið að

• hafa áhrif á viðhorf, m.a. heilbrigðisviðhorf og viðhorf til lífsins,
• efla samskiptahæfni þ.e. geta sett sig í spor annarra, gæta tillitssemi og sýna virðingu
gagnvart bæði sjálfum sér og náunganum,
• efla sjálfsvitund svo nemendur þori að fylgja sannfæringu sinni og virði jafnframt
viðhorf og tilfinningar hvers annars.


Miðstig
Markmið að

• auka þekkingu og skilning nemenda á skaðsemi fíkniefna,
• sýna nemendum fram á kosti þess að vera fíkniefnalaus,
• efla bekkjarandann og hvetja bekkinn í heild til að hafna öllum fíkniefnum,
• veita nemendum stuðning gegn hópþrýstingi og styrkja færni þeirra í að segja nei við
fíkniefnum.


Unglingastig
Markmið fíkniefnaforvarna á unglingastigi er að nemendur afli sér það mikillar
þekkingar á skaðsemi vímuefna að þeir öðlist færni í því að hafa jákvætt viðhorf til
heilbrigðs lífernis og skilji að það sé liður í því að fyrirbyggja heilsufarsvanda.
Nemendur þurfa æfingu í að standast hópþrýsting til að geta valið sjálfir að neyta ekki
fíkniefna og það má gera með því að:
• auka þekkingu og skilning á fíkniefnum og áhrifum þeirra og ástæðum fyrir lögboðnum
takmörkunum á framboði þeirra til barna, unglinga og annarra,
• hafa áhrif á viðhorf, m.a. heilbrigðisviðhorf og viðhorf til lífsins,
• hafa áhrif á atferli þannig að ungt fólk kjósi að neyta ekki ávana- og fíkniefna.

Nemendur í 7.-8. bekk taka þátt í verkefni landlæknisembættisins, Tóbakslaus bekkur. Þá taka
nemendur 9. bekkjar þátt í árlegum Forvarnardegi sem er samstarfsverkefni m.a.
forsetaembættisins og íþróttahreyfingarinnar.
Íhlutun
Verði nemandur uppvísir að fíkniefnanotkun í skóla, á skólalóð, samkomum, ferðalögum eða
öðru er fram fer á vegum skólans, skal strax tekið á brotinu og því vísað til umsjónarkennara
og skólastjórnenda sem beina málinu í réttan farveg samanber skólareglur.
Hver sá er verður var við fíkniefni eða notkun þeirra skal tafarlaust tilkynna það til starfsmanna
skólans sem gera viðeigandi ráðstafanir.
Markmið með forvörnum er að stuðla að góðri líðan nemenda, jákvæðri sjálfsmynd og lífsýn,
heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri hegðun. Í skólanum er lögð áhersla á sýn skólans að allir
hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. Skólasamfélagið reynir að
öllum mætti að skapa þær aðstæður að öllum líði vel við starf og leik. Áhersla er lögð á jákvæð
samskipti starfsfólks og nemenda og að þau einkennist af virðingu, góðvild og festu. Forvarnir
eru samofnar öllu starfi skólans og farnar eru margvíslegar leiðir að markmiðum
forvarnaráætlunar.

Markmið:
• Að gera nemendur færa um að rækta persónuleg lífsgæði sem fylgja þeim ævina á
enda.
• Að efla getu nemenda til að taka ábyrgð á eigin lífi, taka ábyrga afstöðu til neyslu
fíkniefna og misnotkunar á lyfjum.
• Að fræða nemendur um skaðsemi og hættur sem fylgja neyslu vímuefna.
• Að styrkja líkamsvitund nemenda og ábyrgð á eigin líkama.
• Að halda uppi fræðslu fyrir foreldra/forráðamenn um vímuefni og skaðsemi þeirra.