Skólaakstur

Skólaakstur 2023-2024

Nemendur sem búa utan þéttbýlismarka Reykjahlíðar eiga rétt á skólaakstri. Allir nemendur mæta í skólann á sama tíma og fara heim á sama tíma.

Ef foreldrar akstursbarna óska eftir því að börn þeirra taki með sér gesti heim úr skólanum verða þeir að fá samþykki bílstjóra fyrirfram.
Það er einn skólabíll sem leggur af stað frá Baldursheimi kl. 7:50. Nemendafjöldi er 8.
kl. 7:50 Baldursheimur
kl. 7:55 Gautlönd
kl. 8:05 Skútustaðir
kl. 8:25 Reykjahlíðarskóli
Heimferðir eru kl.15:10 mánudaga til fimmtudaga og kl. 12:50 á föstudögum.

Reglur um skólaakstur má finna hér:
Nemendur eiga að sitja í sætum sínum og skulu hafa bílbeltin spennt,
sælgæti er óleyfilegt og áríðandi er að foreldrar láti skólabílstjóra vita ef börn þeirra fara ekki í eða úr skóla með skólabíl.

SVEITARFÉLAGSINS SKÚTUSTAÐAHREPPS

1. gr. Gildissvið
Um skólaakstur í Sveitarfélaginu Skútustaðahreppi gilda Reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009 með síðari breytingum ásamt eftirfarandi sérákvæðum.

2. gr. Ábyrgð
Sveitarfélagið ber kostnað og ábyrgð á öryggi, velferð og hagsmunum nemenda í skólaakstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi. Þegar um er að ræða tímabundna vistun fósturbarns, ber lögheimilissveitarfélag kostnað af skólaakstri.

3. gr. Akstursáætlun
Daglegur skólaakstur skal skipulagður í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum, svo sem fjarlægðar milli heimilis og skóla. Daglegur skólaakstur er í samræmi við útboðslýsingu hverju sinni og er skipulagður samkvæmt skólaakstursáætlun sem skólastjóri vinnur í samræmi við nemendafjölda, kennsluskipan og aðrar þær þarfir nemenda fyrir akstur sem samkomulag er um að uppfylla. Skólastjóri leggur fram áætlun um skólaakstur við upphaf hvers skólaárs þar sem fram koma upplýsingar um fjölda farþega, akstursleiðir, tímasetningar og fjölda akstursdaga á skólaárinu. Skipulagi skólaaksturs verður að öllu jöfnu ekki breytt innan skólaárs nema til komi fjölgun/fækkun grunnskólabarna sem nýta skólaakstur. Áætlunina skal kynna skólanefnd grunnskólans sbr. 8. gr. laga nr. 91/2008 og skal hún vera aðgengileg íbúum á heimasíðu grunnskólans.

4. gr. Öryggi og búnaður skólabifreiða
Bifreið, sem notuð er í skólaakstri, skal uppfylla skilyrði til fólksflutninga samkvæmt lögum þar um, reglugerðum og settum reglum um öryggi farþega, gerð, búnað og notkun öryggis- og verndarbúnaðar og merkingu bifreiða sem í gildi eru á hverjum tíma. Bifreiðastjóri leggur mat á hvort aðstæður séu með þeim hætti, t.d. vegna veðráttu eða ófærðar, að breyta þurfi út frá fyrirliggjandi áætlun um daglegan skólaakstur. Tilkynna ber um slíkar breytingar án tafar til skólans. Skólanefnd Sveitarfélagsins Skútustaðahrepps metur hvort þörf sé á gæslumanni í skólabifreið með hliðsjón af öryggi, fjölda, aldri nemenda og samsetningu nemendahópsins sem ferðast með bifreiðinni, vegalengd og öðrum aðstæðum, óski skólastjóri þess.

5. gr. Um skipulag skólaaksturs
Sveitarfélagið skipuleggur skólaakstur í dreifbýli þar sem nemendur eiga lögheimili og útvegar viðeigandi akstursþjónustu. Eftir því sem við á fylgja foreldrar/forsjármenn börnum sínum að bíl og taka á móti þeim eftir skóla. Miðað er við að skólabíl sé ekið inn á heimreiðar. Skólaakstur fellur niður þegar skóli starfar ekki. Bifreiðastjóri skal kappkosta að gera hverja ferð sem þægilegasta fyrir farþega sína og halda áætlun eins og kostur er. Virða ber ákvarðanir skólastjóra um komutíma skólabíls að og frá skóla. Skólastjóri eða staðgengill hans tilkynnir bifreiðastjóra um frávik frá venjubundinni ferðatilhögun og/eða tímasetningu jafnskjótt og slíkar ákvarðanir liggja fyrir. Foreldrar/forsjármenn láta bifreiðastjóra og skóla vita eins fljótt og hægt er ef þeir meta það svo að þeir vilji ekki senda börnin af stað vegna veðurs, frís eða forfalla. Daglegum skólaakstri ber að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að lögbundnum skóladegi og/eða frístundastarfi lýkur. Nemendur eru sóttir á sérmerkt stæði á skólalóð. Miða skal við að daglegur heildartími skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma sé sem stystur og sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur. Skólastjóri skal semja sérstaklega um allan aukaakstur s.s. vegna félagsstarfa.

Nemendur sem búa utan skilgreinds þéttbýliskjarna í Reykjahlíð eiga rétt á skólaakstri.

5. gr. Bifreiðastjóri
Sveitarfélagið Skútustaðahreppur semur við þar til bæran verktaka um framkvæmd skólaaksturs. Skólastjóri viðkomandi skóla er yfirmaður bifreiðastjóra að því leyti sem það varðar daglegt fyrirkomulag aksturs og umsjón nemenda í skólaakstri. Bifreiðastjóri skólabifreiða skal hafa aukin ökuréttindi og hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla. Óheimilt er að ráða bifreiðastjóra til skólaaksturs eða gæslumann, sbr. ákvæði 5. greinar, sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við gerð samnings um akstur skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra eða fræðslustjóra til þess að afla upplýsinga úr sakaskrá, sbr. 3. mgr. 11 .gr. laga nr. 91/2008.

6. gr. Öryggi farþega
Bifreiðastjóri skal sjá til þess að nemendur séu í öryggisbeltum og hann skal ekki leggja af stað fyrr en öll öryggisatriði hafa verið uppfyllt. Bifreiðastjóra ber að sýna sérstaka aðgát áður en nemendum er hleypt út úr skólabifreið. Bifreiðastjóri getur tekið ákvörðun um að aka ekki ef aðstæður eru með þeim hætti, t.d. vegna veðráttu eða ófærðar, að breyta þurfi út frá fyrirliggjandi áætlun um daglegan skólaakstur og skal skólastjórnendum tilkynnt um slíka ákvörðun jafnfljótt og hún liggur fyrir. Ekki skal skilja börnin eftir ein í vondum veðrum. Skólareglur, skv. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, eiga við um framkomu og háttsemi nemenda í skólaakstri. Fara skal með brot á skólareglum skv. 14. gr. laga um grunnskóla. Bifreiðastjórar/verktakar skulu sýna trúnað um öll mál er þeir kunna að fá vitneskju um í starfi sínu og snerta einstaka nemendur, foreldra þeirra eða aðstandendur. Komi upp vandamál í skólabíl svo sem vanlíðan, einelti eða stríðni, eða verði bílstjóri var við að eitthvert barnanna eigi í erfiðleikum ber honum að ræða það við skólastjóra og/eða foreldra.

7.gr. Um meðferð ágreiningsmála
Telji foreldrar einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barns sé brotið getur það leitað leiðréttingar hjá skólastjóra. Áskilinn er réttur verksala til að rifta samningi verði bifreiðastjóri uppvís að brotum á samningum eða reglum þessum.

Að öðru leyti vísast í reglur Mennta- og menningarmálaráðuneytis um skólaakstur nr. 656/2009.

Samþykkt í sveitarstjórn Skútustaðahrepps 28. júní 2018.