Lestrarstefna

Lestur er undirstaða náms og eitt öflugasta tækið sem hægt er að nota til að afla sér þekkingar. Lestur og læsi er einnig mikilvæg forsenda fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og því leggur Reykjahlíðarskóli áherslu á læsi á allri skólagöngu nemandans.

Lestrarkennslan í skólanum er margþætt og margir samverkandi þættir sem gera lestrarnámið árangursríkt. Lestrarnámið er samvinnuverkefni heimilis og skóla þar sem þáttur foreldra í heimalestri gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Nemendur í 2. ­- 7. bekk eiga að lesa heima a.m.k. fimm sinnum í viku í að lágmarki 10 ­ 15 mínútur, foreldrar/forráðamenn kvitta fyrir. Allir nemendur í 2. -­ 7. bekk hafa kvittanablöð fyrir heimalestur. Nemendur í 1. bekk lesa tvisvar á dag fyrir kennara 5 daga vikunnar.

Í Reykjahlíðarskóla eru notaðar ýmsar lestraraðferðir til að koma sem best til móts við þarfir nemenda.

Skólabókasafnið er mikilvægur hlekkur í lestrarnáminu. Nemendur hafa daglegan aðgang að safninu og nýta bækur þaðan í heimalestri þegar lestrarnámið er komið vel á veg.

Yndislestrarstundir eru skipulagðar í námi barnanna. Þar gefst nemendum kostur á að skoða eða lesa bækur að eigin vali. Einnig er tíminn nýttur til að lesa í heimalestrarbók eða námsbók, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Lestrarátak er í skólanum fyrir 2. – ­10. bekk tvisvar sinnum á vetri.

Lestrarstefna Reykjahlíðarskóla er í sífelldri endurskoðun og verður breytt eftir þörfum.