Gestir í Reykjahlíðarskóla

Reykjahlíðarskóli er þessa dagana þátttakandi í ERASMUS+ verkefni sem snýr að loftslagsbreytingum og áhrifum náttúruhamfara. Í tengslum við það verkefni voru gestir, kennarar og skólastjórnendur, frá Tyrklandi og Rúmeníu í heimsókn við skólann í vikunni. Einnig áttu að vera gestir frá Póllandi með í för en þeir urðu því miður veðurtepptir í Póllandi þar sem flugi þeirra var aflýst vegna óveðurs á Íslandi. 

Verkefnið hófst á haustönn og lögð er áhersla á mismunandi náttúruhamfarir sem dynja á jörðinni og áhrif þeirra á loftslagsbreytingar. Nemendur í 5.-10. bekk sem eru í jarðfræðivali taka þátt í verkefninu undir leiðsögn Bylgju Daggar.

Á haustönninni var lögð áhersla á eldfjöll, sem er tenging Íslands (Reykjahlíðarskóla) inn í verkefnið. Á vorönn verður fjallað um flóð og munu nemendur í jarðfræðivali heimsækja Pólland í lok annar. Næsta vetur verður umfjöllunarefnið jarðskjálftar, með áherslu á Tyrkland, og skógareldar með tengingu við Rúmeníu og eru fyrirhugaðar nemendaferðir til beggja landa.

Þó að upphaflega hafi staðið til að fá nemendur frá öllum samstarfslöndunum í heimsókn til Íslands, varð það því miður ekki hægt vegna kostnaðar við ferðalög til, frá og á Íslandi. Í staðinn munu nemendur eiga samskipti í gegnum fjarfundabúnað og hittast síðar í hinum löndunum þremur.

Heimsóknin gekk ekki alveg snurðulaust fyrir sig vegna óveðursins sem geisað hefur um land allt. Pólsku þátttakendurnir komust ekki til landsins þar sem flugi þeirra var aflýst, og hinir urðu veðurtepptir í Reykjavík. Allir voru þó mættir í sveitina á þriðjudagskvöldi en veðrið hélt áfram að leika okkur grátt. Á fimmtudeginum var skólahaldi aflýst og þorrablóti, sem vera átti um kvöldið og gestunum hafði verið boðið á, frestað um viku. Allir voru þó glaðir með heimsóknina þegar kom að kveðjustund á föstudagsmorgni þrátt fyrir að hafa ekki fengið að bragða á íslenskum þorramat. 

ERASMUS+ verkefnið er mikilvægur liður í að auka skilning nemenda á loftslagsbreytingum og áhrifum náttúruhamfara, ásamt því að efla alþjóðlegt samstarf og skilning milli landa. Nemendur fá tækifæri til að læra um mismunandi náttúruhamfarir í raunverulegu samhengi og kynnast jafnöldrum sínum frá öðrum löndum.