Nemendur Reykjahlíðarskóla tóku þátt í Hugleiðsludegi Unga Fólksins með því að hugleiða í þrjár mínútur í október s.l. Þess má geta að þriggja mínútna hugleiðing er vel af sér vikið, prófi hver sem vill. Nemendur hlýddu á hljóðskrá og hugleiddu á meðan. Hugleiðsla er leið til að stjórna huganum og beina honum í ákveðna átt og taka af sjálfsstýringu. Regluleg hugleiðsla getur dregið úr kvíða og streitu, bætt svefn og einbeitingu auk þess að ýta undir bjartsýni og jákvæðni.
Okkur hefur borist þetta fallega viðurkenningarskjal frá Hampverki en skjalið er búið til úr Hampi sem ræktaður er í Hörgársveit. Hampbændurnir á bænum Hlöðum í Hörgársveit eru einnig framleiðendur þessa fallega handverks og er hver og ein pappírsörk einstök. Við prentun á skjalið var notað eiturefnalaust hrísgrjóna- og sojablek. Þess má til gamans geta að Ragnheiður Diljá, fyrrum nemandi við Reykjahlíðarskóla, ræktar bæði hampinn og framleiðir pappírinn ásamt sambýlismanni sínum Jóel Geir. Óskum við þeim góðs gengis í frumkvöðlastarfi sínu.