Áralöng hefð er fyrir því að þorrablót Reykjahlíðarskóla sé haldið á vegum foreldrafélagsins. Þorrablótið er ávallt að kvöldi til í skólanum þar sem foreldrum og öðrum góðum gestum er boðið að snæða þorramat og sjá skemmtiatriði á vegum 5. - 10. bekkjar. Í ár fór gestafjöldi upp í 150 manns sem er heldur fjölmennt fyrir sal skólans. Daginn fyrir blótið var því brugðið á það ráð að færa hátíðarhöldin yfir í Skjólbrekku, samkomuhús Mývatnssveitar.
Þorrablótið tókst vel og þótti nemendum spennandi að sýna atriði sín á stóra sviðinu og dansa á dansgólfi fullorðna fólksins. Rúmt var um mannskapinn og telur bæði starfsfólk skólans og foreldrar að ekki sé úr vegi að halda þorrablót skólans framvegis í Skjólbrekku.