Þorrablót skólans

Þorrablót Reykjahlíðarskóla var haldið í hádeginu 3. febrúar. Borðin svignuðu undan kræsingunum og var boðið upp á hefðbundið Þorrasúrmeti og -ferskmeti auk hangikjöts, harðfisks, hákarls, rúg-, flat- og laufabrauðs, rófustöppu, jafnings og kartaflna. Það borðuðu flestir vel af matnum og margir hverjir lögðu sig fram við að smakka sem flest. Einhverjir uppgötvuðu að það sem þeir héldu að væri vont væri í raun bara gott. Í eftirrétt var afgangurinn af ísnum sem nemendur bjuggu til í jólaþemanu og rann hann ljúflega niður. Eftir matinn brustu allir í söng við undirleik Stefáns tónlistarkennara, og nemendur 4.-10. bekkjar sýndu skemmtiatriði sem þóttu virkilega fyndin og skemmtileg og nokkrir af yngri nemendunum sögðu brandara á meðan beðið var á milli atriða. Blótið endaði með marseringu undir stjórn Christine Leu og Agnesar í 10. bekk. Virkilega vel heppnað og skemmtilegt Þorrablót.