Útikennsla 1.-3. bekkur
Í vetur tókum við upp þá nýjung að vera með tíma í stundatöflunni fyrir útikennslu. Við höfum brallað ýmislegt saman úti í þessum tímum og hafa þeir verið mjög skemmtileg tilbreyting. Við höfum nýtt okkur útikennslusvæðið við íþróttahúsið og er það alveg frábært með endalausa möguleika. Svæðið er enn í vinnslu en þar er trjákofi/tjald (skiptar skoðanir eru á hvað á að kalla þetta) með trjádrumbum sem hægt er að sitja á og fyrir utan er lítið svið. Flest verkefnin reyna á samvinnu og höfum við verið í misstórum hópum, allt frá því að hafa fjóra, þrjá, tvo eða einstaklingshópa. Verkefnin voru mjög svipuð hjá 1. bekk og svo 2.-3. bekk en hér að neðan er sagt frá hvað við gerðum og myndir fylgja. Það er búið að vera mjög gaman hjá okkur og hlakka ég til allra þeirra ævintýra sem vorið býður upp á.
-Hulda María
Á þriðjudögum höfum við farið út í tvær kennslustundir, u.þ.b. aðra hvora viku eftir veðri og vindum. Í byrjun haustsins fórum við út með allskonar form sem við vorum að læra í stærðfræði og áttum við að finna hluti í náttúrunni sem voru með þessu formi eins og t.d. sveppi sem voru hringlóttir. Einnig nýttum við m.a. strá og steina til að búa til útlínur formanna. Næst fórum við og skoðuðum haustlitina og tíndum mismunandi laufblöð og fórum svo inn og þurrkuðum þau. Við fórum líka út með tölustafina og vorum að finna ákveðinn fjölda af steinum t.d. og röðuðum þeim svo í eggjabakka. Næst héldum við áfram með tölurnar en í þetta sinn vorum við með blöð með myndum af þeim hlutum sem áttu að finna. Þar áttuðum við okkur á að ekki væri hægt að finna allt á blaðinu vegna þess að það var kominn snjór. Í lok nóvember áttum við svo afar huggulega stund þar sem við byrjuðum daginn á því að smyrja okkur nesti og fórum svo út. Þar sem það var myrkur úti nýttum við okkur það í að skoða endurskinsmerki með höfuðljósum, bæði á fötunum okkar og skreyttum tré með þeim og voru þau þá eins og hin fínustu jólatré. Eftir það settumst við inn í trjákofann, borðuðum samlokurnar, drukkum heitt kakó og fengum smákökur. Í seinasta tíma annarinnar vorum við að læra um jólasveinana, fórum yfir vísurnar og reyndum að giska hvaða jólasveinn ætti hverja þeirra. Síðan fengu allir einn jólasveinn og fórum við á sviðið og kynntum jólasveinana og hvað það væri sem þeir gera. Tímann enduðum við á að fara upp hlíðina eins hátt og við komumst og hlupum svo niður í púðursnjónum.
2.-3. bekkur
Á föstudögum höfum við farið út í tvær kennslustundir, u.þ.b. aðra hvora viku eftir veðri og vindum. Í byrjun haustsins fórum við út með blað með mynd af greinum, berjum, blómum og laufblöðum. Hver hópur átti svo að finna þrennt af öllu á blaðinu og var það miserfitt. Dagur íslenskrar náttúru er 16. september og deginum eftir gerðum við verkefni í tilefni þess. Veðrið var ekkert sérstakt svo við vorum inni og ímynduðum okkur að við værum ein í heiminum og teiknuðum mynd af okkur og af náttúrunni í kringum okkur eins og við myndum vilja hafa hana. Næst fórum við út að skoða haustlitina og tíndum mismunandi laufblöð og fórum svo inn og þurrkuðum þau. Seinna gerðum við gluggalistaverk úr laufblöðunum og þar sem við bjuggum til ramma, og settum hann og laufblöð í plastvasa og plöstuðum það. Næst fórum við út að skoða mismunandi form og áttum að finna hluti í náttúrunni sem voru með þessu formi, einnig nýttum við m.a. strá og steina til að búa til útlínur formanna. Næst voru bókstafir faldir um móann og áttum við að finna stafina og finna eitthvað sem hefur þá stafi og var alveg ótrúlegt hvað við gátum fundið margt fyrir hvern staf. Einnig settum við upp frumsamin leikrit á sviðinu og lærðum ýmsa nýja útileiki og rifjuðum upp gamla. Í byrjun desember áttum við svo afar huggulega stund þar sem við byrjuðum daginn á því að smyrja okkur nesti og fórum svo út. Þar sem það var myrkur úti nýttum við okkur það í að skoða endurskinsmerki með höfuðljósum, bæði á fötunum okkar og skreyttum tré með þeim og voru þau þá eins og hin fínustu jólatré. Eftir það settumst við inn í trjákofann, borðuðum samlokurnar, drukkum heitt kakó og fengum smákökur. Í seinasta tíma annarinnar vorum við að læra um jólasveinana, fórum yfir vísurnar og reyndum að giska hvaða jólasveinn ætti hverja þeirra. Síðan fengu allir einn jólasveinn og fórum við á sviðið og kynntum jólasveinana og hvað það væri sem þeir gera. Tímann enduðum við á að fara upp hlíðina eins hátt og við komumst og hlupum svo niður í púðursnjónum.