Útikennsla á vorönn hjá 1. Bekk
Eftir áramót höfum haldið áfram ótrauð með útikennslu hjá 1. Bekk. Við höfum farið út flest alla þriðjudaga í 1-2 kennslustundir eftir veðri, vindum og verkefnum. Það sem við höfum gert í þessum tímum er afar fjölbreytilegt og reynir mikið á samvinnu og samskipti. Hér ætla ég að segja frá því sem við höfum gert og síðan fylgja með myndir úr tímunum.
- Við lærðum nýja útileiki, t.d. leikinn með dýraeftirlitsmanninnum og apanum sem reynir að komast í lestina.
- Við fórum uppá Hlíðina og skoðuðum í kringum okkur hvað við sæjum, hvaða fjöll við þekktum og fleira. Ferðin var örlítið krefjandi í snjónum en það gerði hana bara ennþá skemmtilegri.
- Við héldum áfram að fara yfir fjöllin í sveitinni og skoðuðum myndir af helstu áfangastöðum sveitarinnar. Við fórum yfir myndirnar saman og sögðum frá því hvað við þekktum og reynslusögur frá hverjum stað. Síðan fórum við líka í minnisspil með sömu myndum til að leggja þessa staði enn betur á minnið.
- Við fórum út í skóg í klemmuleik þar sem þvottaklemmur með mismunandi litum voru hengdar á tréin. Hver hópur átti að finna klemmurnar með sínum lit og skiptumst við á að fela klemmurnar.
- Við fórum út með allskonar dót í mismunandi pokum og fórum í skynjunarleik. Hann fólst í því að við settum hendina ofaní pokann og áttum að reyna að átta okkur á því hvað var í pokanum. Það gerðum við með því að útskýra fyrir félaga okkar og í sameiningu áttuðum við okkur á því hvað væri í pokanum án þess að sjá hlutina. Sumt var mjög auðvelt að átta sig á eins og t.d. könglar og blöðrur en annað var mjög erfitt að átta sig á.
- Við bjuggum til snjóhús og þegar það var klárt þannig að við kæmumst (flest) inn í það þá tókum við upp prímus, bræddum snjó og fengum okkur kakó. Það var mjög áhugavert að fylgjast með snjónum bráðna og sjá hvað hann minnkaði mikið.
- Við fórum út með allskonar mismunandi smápeninga og allskonar flotta steina og settum upp verslun með þá. Krakkarnir völdu sér steina og þurftu að athuga hvort þeir ættu nægan pening til að kaupa þá og telja peningana saman.
- Við fórum út og gengum um þorpið og skoðuðum umferðarskiltin sem við sáum. Þau eru nú ekki svo mörg svo við vorum með útprentuð fleiri skilti með okkur til að geta skoðað fleiri skilti. Við vorum líka með útprentuð umferðarljós með okkur og fórum í leik með þau.
- Við fórum út með spreybrúsa með vatni og matarlit. Við bjuggum til ýmiskonar listaverk í snjóinn sem voru eins misjöfn og þau voru mörg.
- Við fórum út með iPad og lista yfir ákveðna hluti sem við áttum að taka myndir af okkur með. Uppi á hól, knúsa ljósastaur, einhverju mjúku o.fl. Að því loknu fórum við aftur inn skoðuðum myndirnar hjá hvort öðru á skjávarpa. Það var gaman að sjá hvað þær voru mismunandi.
- Í seinasta tíma annarinnar fórum við í fjársjóðsleit með fjársjóðskort þar sem margir litlir fjársjóðir (allskonar steinar) voru á leið okkar að stærsta fjársjóðnum sem var grill. Við kveiktum upp í grillinu, útbjuggum okkur grillspjót með pylsum, paprikum og tómötum, grilluðum þau og borðuðum svo með bestu list. Pylsurnar slógu í gegn en paprikurnar og tómatarnir voru alls ekki vinsæl.
Útikennsla á vorönn 2.-3. Bekkur
Eftir áramót höfum við í 2.-3. bekk haldið áfram að fara út flest alla föstudaga og bralla ýmislegt saman. Við fórum yfirleitt út í tvær kennslustundir, eftir veðri og vindum. Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt og reyna þau mikið á samvinnu og samskipti. Ég ætla að segja aðeins frá því sem við höfum verið að gera í vetur og síðan fylgja myndir úr tímunum með.
- Við fórum uppá Hlíðina og skoðuðum í kringum okkur hvað við sæjum, hvaða fjöll við þekktum og fleira. Ferðin var mjög krefjandi í harðfenninu, en allir komust (nánast) stórslysalaust upp og fórum við mjög hratt niður aftur og það var mjög gaman.
- Við fórum út og unnum í pörum, drógum bókstafi og fundum eitthvað í náttúrunni sem byrjar á þeim staf og skrifuðum það niður á blað. Við drógum svo fleiri stafi og endurtókum það sama.
- Við fórum út í skóg í klemmuleik þar sem þvottaklemmur með mismunandi litum voru hengdar á tréin. Hver hópur átti að finna klemmurnar með sínum lit og við skiptumst á að fela klemmurnar.
- Við fórum út með allskonar dót í mismunandi pokum og fórum í skynjunarleik. Hann fólst í því að við settum hendina ofaní pokann og áttum að reyna að átta okkur á því hvað var í pokanum. Það gerðum við með því að útskýra fyrir félaga okkar og í sameiningu áttuðum við okkur á því hvað væri í pokanum án þess að sjá hlutina. Sumt var mjög auðvelt að átta sig á eins og t.d. könglar og blöðrur en annað var mjög erfitt að átta sig á.
- Við fórum út og byggðum snjóvirki með sófum og borði. Þegar virkið var tilbúið tókum við upp prímus, bræddum snjó og fengum okkur heitt kakó. Okkur fannst mjög áhugavert að fylgjast með snjónum bráðna, hversu mikið hann minnkaði og þegar hann byrjaði svo að sjóða.
- Við fórum út í dulmálsratleik þar sem við fengum blað með dulmáli fyrir hvern bókstaf og svo fengum við vísbendingar sem við þurftum að lesa úr. Vísbendingarnar leiddu okkar að næsta stað þar sem við fengum nýja vísbendinga o.s.frv. Þær leiddu okkur niður í þorp, upp á verkstæði og aftur niður í skóla.
- Við fórum út og gengum um þorpið og skoðuðum umferðarskiltin sem við sáum. Þau eru nú ekki svo mörg svo við vorum með fleiri útprentuð skilti með okkur til að geta skoðað fleiri skilti. Við vorum líka með útprentuð umferðarljós með okkur og fórum í leik með þau.
- Við fórum út með spreybrúsa með vatni og matarlit. Við bjuggum til ýmiskonar listaverk í snjóinn sem voru eins misjöfn og þau voru mörg.
- Við fórum út með 1. bekk og Corneliu og fórum að vinna við gróðurkassana sem búið var að koma fyrir við skólann. Við tíndum greinar og laufblöð og settum í þá, settum snjó í til að bleyta upp í því og hestaskít.
- Við fórum út með iPad og lista yfir ákveðna hluti sem við áttum að taka myndir af okkur með. Uppi á hól, knúsa ljósastaur, einhverju mjúku o.fl. Að því loknu fórum við aftur inn skoðuðum myndirnar hjá hvort öðru á skjávarpa. Það var gaman að sjá hvað myndirnar voru mismunandi og hve mismunandi skilningur var á sumu eins og t.d. að taka mynd af ummerki eftir dýr.
- Í seinasta tíma annarinnar fórum við í fjársjóðsleit með fjársjóðskort þar sem margir litlir fjársjóðir (allskonar steinar) voru á leið okkar að stærsta fjársjóðnum sem var grill uppi á Ræningjahæð. Við kveiktum upp í grillinu, útbjuggum okkur grillspjót með pylsum og paprikum grilluðum þau og borðuðum svo með bestu list. Pylsurnar slógu í gegn en paprikurnar voru alls ekki vinsælar. Síðan lékum við okkur á Ræningjahæð í allskonar leikjum þangað til tíminn var búinn.