Miðvikudagurinn – Bjarnarflags vettvangs hjólaferð
Fyrsta þemadaginn byrjuðum við á því að fara í ruslatínslu í kringum skólann. Eftir það fórum við í vettvangsferð upp í Bjarnarflag, flestir fóru á hjólum en sumir gengu. Fyrsta stopp var í gömlu Kísiliðjunni þar sem Júlía hjá Mýsköpun og Garðar hjá Plastgarðar tóku á móti okkur og kynntu starfsemi sína.
Við byrjuðum á því að fá að smakka spirulinuísinn sem var ofboðslega góður og hollur og höfðu nokkrir nemendur orð á því afhverju væri ekki oftar ís í matinn í skólanum fyrst hann væri svona hollur. Júlía sýndi okkur svo þar sem verið er að rækta spirulinu þörunginn sem fannst í Mývatni. Við fengum að sjá hann í smásjá og hvernig hann er sigtaður frá vökvanum. Garðar sýndi okkur hvernig hann ætlar að búa til endurnýtanlega heyrúllupoka. Hann var með hröðustu saumavél í heimi að eigin sögn til að sauma þá saman og vél sem bræddi plastið saman og sýndi okkur hvernig það gerist.
Eftir þetta fengum fengum við svo nesti.
Þegar nestispásan var búin hittum við Sigþóru og Jóhannes frá MýSilica sem sögðu okkur frá húðvörum sem þau eru að vinna úr affalsvatni frá Bjarnarflagsvirkjun. Þau gáfu okkur öllum baðbombu sem þau eru að búa til. Síðan hjóluðum/gengum við að skiljustöðinni og þau sýndu okkur hvar þau taka vatnið þar. Þar hittum við líka Hildi frá Landsvirkjun og hún sagði okkur frá Bjarnarflagsvirkjun. Það kom hellidemba á okkur á meðan en það er enginn verri þó hann vökni.
Þegar við komum aftur í skólann grilluðum við sykurpúða og lékum okkur úti í smástund þar til við fórum heim. Allir fóru sælir, rennblautir og margir drullugir heim eftir þennan góða dag og margs fróðari um hvað Mývatnssveit hefur upp á að bjóða.
Föstudagurinn – Fuglaskoðunarferð umhverfis Mývatn
Á föstudeginum fórum við í rútuferð umhverfis Mývatn. Við einblíndum á það að skoða fuglana sem á vegi okkar voru og byrjuðum á því að fara í Fuglasafn Sigurgeirs. Flesthöfðum við komið þangað áður en það er alltaf gaman að koma á þetta glæsilega safn. Bæði fuglarnir, kúluskítarnir og gömlu munirnir vöktu mikla athygli. Að því loknu héldum við rútuferðinni áfram og fengum fuglabingó með 12 fuglum sem við áttum að reyna að finna á ferð okkar. Það vakti strax mikla athygli að einn fuglinn í bingóinu væri Flamingó og sáu ýmsir Flamingóa út um allt. Næsta stopp var á Skútustöðum þar sem við fórum í gönguferð með Ragnari landverði Umhverfisstofunar í kringum Stakhólstjörn. Við tókum með okkur skóflur og mokuðum frá Skipalæknum og busluðum þar í vatninu og urðum misblaut við það. Næst fórum við í Grænavatn þar sem Arna tók á móti okkur og sýndi okkur gamla bæinn og rústirnar bak við hann. Að því loknu keyrðum við aftur í skólann og fengum pylsur áður við fórum heim.
Flestir sáu nánast alla fuglana á bingóinu, en enginn náði þó að fá bingó þar sem ótrúlegt en satt sáum við engan Flamingó og Haförninn var ekki á sveimi.
Mánudagurinn – Froðurennibrautarferð í Þingeyjarskóla
Á mánudeginum fórum við í rútuferð niður í Þingeyjarskóla. Þegar við komum þangað voru 10. bekkingar þar í keppni við starfsmenn og fylgdumst við með því. Síðan var komið að því sem við fórum til að gera, froðurennibrautinni! Þar var slökkviliðið að sprauta vatni og froðu og fórum við óteljandi margar ferðir í rennibrautinni og var það ótrúlega gaman enda gat veðrið ekki verið betra. Eftir það fengum við hamborgara, lékum okkur áfram í blíðunni með hinum krökkunum og fórum svo heim.
Þriðjudagurinn – Ratleikur, skólaslit og útskrift
Á þriðjudeginum byrjuðum við morguninn á því að vera í leikjum inni í skóla undir stjórn stelpnanna í 10.bekk á meðan ratleiknum var komið fyrir. Eftir það var öllum skipt niður í hópa og fórum við í ratleik um þorpið þar sem við þurftum að leysa einhverskonar þrautir á hverri stöð. Þegar komið var til baka í skólann lékum við okkur úti fram að hádegismat þar sem við fengum grillaða hamborgara og ís.
Skólaslitin voru síðan haldin úti enda var veðrið eins gott og getur verið. Þar fengu nemendur 1.-9. bekkjar vitnisburðinn sinn og var Reykjahlíðarskóla árið 2021-2022 slitið og allir héldu kátir og glaðir í sumarfrí!
Seinnipartinn komu útskriftarnemendur úr 10. bekk í skólann ásamt gestum og starfsfólki skólans og áttum við notalega stund saman. Þar sagði Arnheiður örfá orð til útskriftarnemenda og nemendur sömuleiðis til skólans. Að því loknu sátum við og spjölluðum og nutum glæsilegra kræsinga sem Berna hafði útbúið fyrir okkur. Í lokin stjórnuðu útskriftarnemar marseringu og kvöddu þannig skólann.
Takk fyrir veturinn, eigið gott sumar og við hlökkum til að sjá ykkur aftur í haust.